Bættu við smáatriðum sem gestir verða hrifnir af

Fyrrum hönnunarstýra deilir bestu ábendingum sínum um skreytingu.
Airbnb skrifaði þann 13. apr. 2021
6 mín. lestur
Síðast uppfært 18. apr. 2022

Aðalatriði

  • Að skapa eftirminnilega upplifun fyrir gestina þína hefst með því að hanna eignina vel

  • Ábendingar sérfræðinga fela í sér að setja tóninn fyrir eignina þína, búa til notalega króka og sérsníða hönnunina

  • Lítil gjöf og þægindi frá staðnum geta bætt gistingu gesta

  • Kynntu þér meira í handbók okkar um enn betri gestaumsjón

Þegar gestir fara inn í „The Beach Lodge“ í Hollywood Beach, Kaliforníu, fá þeir samstundis tilfinningu fyrir hver Tiffany Caliva-Talledo er. Hugulsemi hennar og ástríða fyrir hönnun skín í gegn með vali hennar á skreytingum, litum, áferðum og persónulegu ívafi. Sem fyrrum hönnunarstýra hefur hún ávallt haft auga fyrir smáatriðum. Hér deilir hún leyndarmálum sínum um árangur á Airbnb.

Ofurgestgjafinn Tiffany deilir bestu ráðum sínum varðandi hönnun og gestrisni.

Beach Lodge verður til

„Fyrir endurbætur okkar á The Beach Lodge var þetta ljótt, rotið, grænt heimili. Það gekk undir nafninu „dópgrenið“ og fólk hljóp oftast fram hjá því! Nágrannarnir héldu að við værum brjáluð að kaupa eignina en ég sá eitthvað sérstakt við hana. Ég fékk á tilfinninguna að ef við myndum gera hana upp myndi fólk vilja gista í henni. Ég hef sett svo mikla natni og ást í hana og ég held að það sé ástæða þess að fólk snýr aftur.“

7 ábendingar Tiffany til að vekja ánægju

Skapaðu stemningu
„Ógleymanlegar upplifanir hefjast alltaf á réttum tóni. Þegar ég hanna eign segi ég viðskiptavinum mínum að hugsa um tilfinninguna áður en kemur að þemanu. Hvað viltu að gestirnir upplifi þegar þeir stíga inn á heimili þitt; þægindi, gleði, friðsæld? Við hönnun á Beach Lodge fylgdi ég ekki bara sjávarþema heldur hugsaði ég heildrænt um liti, áferð og smáatriði. Ég valdi mynstur sem skarast á við hlutlausa liti, sandkennda áferð og nóg af plöntum til að hleypa náttúrunni inn.“

Hannaðu fyrir lítið
„Skreytingar þurfa ekki að vera dýrar! Flóamarkaðir og verslanir með notaða muni eru fullar af fjársjóðum og einstökum munum sem hafa sögu að segja. Maður þarf bara að leita. Ég hef laðast að munum sem endurspegla filippseysku og asísku arfleifð mína. Munirnir sem þú velur fyrir eignina þína ættu að segja eitthvað og saman munu þeir segja meira um heimili þitt.“

Leiktu þér
„Eitt annað ráð sem ég deili með skjólstæðingum mínum er að leyfa sér að leika sér. Breyttu skreytingunum. Prófaðu eitthvað nýtt. Gerðu endurbætur miðað við hverja árstíð. Það er besta leiðin til að komast að því hvað virkar fyrir það sem þú ert að reyna að ná fram og hvað virkar ekki. Hugsaðu um eignina þína sem einstakling með eigin flókinn persónuleika. Hún ætti að breytast og þróast í að vera besta útgáfan af sjálfri sér hverju sinni.“

Búðu til litla króka
„Mér finnst gaman að gera eitthvað óvænt við rými og varðandi útlit. Ein ábending sem ég mæli með er að búa til litla króka á heimilinu, smá afdrep þar sem gestir geta týnt sér í bók. Ég gæti komið fyrir teppum, púðum og málverki úti í horn svo að fólk geti komið sér þar fyrir og slakað á. Hugsaðu um hvernig þú getur búið til þessa litlu notalegu króka í allri eigninni.“

Hugsaðu um eignina þína sem einstakling með eigin flókinn persónuleika.
Tiffany,
Hollywood Beach, California

Gerðu þetta persónulegt
„Ef mögulegt er skaltu reyna að persónugera dvöl gesta með sérstökum munum. Ef einhver nefnir til dæmis að hann eða hún sé að halda upp á afmæli kaupi ég bollakökur úr eftirlætis bakaríinu mínu á staðnum. Ef gestirnir eru grænkerar útbý ég lista yfir réttu veitingastaðina í kring. Ef þetta er fjölskylda með börn nota ég endingarbetri kodda og rúmföt. Gestir taka eftir svona hugulsemi. Þú sérð það í umsögnum þínum og endurteknum bókunum.“

Gefðu þeim litla gjöf
„Ég mæli með því að þú gefir gestum minjagrip þegar þeir koma sem til að taka vel á móti þeim, til dæmis gjafakort hjá fyrirtækjum í nágrenninu eða póstkort eftir listamenn á staðnum.“

„Gestir geta verslað vörur beint frá „The Beach Lodge“, þar á meðal vistvæna sloppa og rúmföt ásamt vintage-munum eða í netversluninni sem ég stofnaði. Ég hef einnig boðið upp á vörumerki frá staðnum sem eru í eigu kvenna, sem skiptir mig máli. Þetta er ekki gert í hagnaðarskyni. Þetta snýst allt um að tengja fólk við þessi vörumerki. Þetta er svo mikið meira en útrás fyrir mig.“

Settu skemmtistjórahattinn upp
Við kölluðum heimilið okkar „The Beach Lodge“ af því að fyrir okkur er skáli notalegt svæði þar sem fólk kemur saman. Við bjóðum borðspil, jógamottur, handverk, efnivið fyrir listsköpun, grill, strandhandklæði, reiðhjól, bækur til að gleyma tímanum og plötuspilara. Ferðalög snúast um að víkka sjóndeildarhringinn og þetta hjálpar fólki að skapa minningar og breyta lífsmunstrinu. Íhugaðu hvaða þægindi geta bætt alla upplifun gesta.“

Mundu að þetta snýst allt um smáatriði, smáatriði, smáatriði! Gestir munu finna fyrir natni þinni í eigninni, þessum hugulsömu atriðum, og þeir munu sífellt snúa aftur.

Aðalatriði

  • Að skapa eftirminnilega upplifun fyrir gestina þína hefst með því að hanna eignina vel

  • Ábendingar sérfræðinga fela í sér að setja tóninn fyrir eignina þína, búa til notalega króka og sérsníða hönnunina

  • Lítil gjöf og þægindi frá staðnum geta bætt gistingu gesta

  • Kynntu þér meira í handbók okkar um enn betri gestaumsjón
Airbnb
13. apr. 2021
Kom þetta að gagni?