Neyðarástandinu í Úkraínu mætt með tafarlausum stuðningi

Milljónir flúðu stríðið. Þúsundir gestgjafa á Airbnb.org tóku á móti þeim.
Airbnb skrifaði þann 19. ágú. 2022
4 mín. myndskeið
Síðast uppfært 25. ágú. 2023

Aðalatriði

  • Sex milljónir manns hafa flúið Úkraínu í leit að öryggi á mánuðunum í kjölfar innrásarinnar árið 2022

  • Gestgjafar opnuðu heimili sín til að leggja Airbnb.org lið við að standa við skuldbindingu sína um að veita 100.000 manns tímabundið húsnæði

Fyrstu vikuna í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu fann skemmtikrafturinn og gestgjafinn Rafal áhrifin sem hún hafði á heimabæ hans Wroclaw í suðvestur Póllandi. Heilu kassarnir af vistum sem fólk hafði gefið stöfluðust upp fyrir utan úkraínska menningarmiðstöð í hverfinu hans. Hann heyrði úkraínskt mál talað á götum og í verslunum.

Innan skamms höfðu þrjár fjölskyldur frá Úkraínu, hver á eftir annari, bókað mánaðarlanga dvöl í húsinu sem hann er með á skrá á Airbnb. Rafal var ekki vel við að innheimta kostnað af fólki á flótta undan stríði og hafði því samband við þjónustuver Airbnb þar sem hann fékk að vita að Airbnb.org gæti niðurgreitt kostnaðinn og í kjölfarið skráði hann eign sína.

Samkvæmt mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna hafa næstum sjö milljónir manna flúið Úkraínu á þeim sex mánuðum sem liðnir eru frá innrásinni í febrúar 2022. Milljónir fjölskyldna komu til borga um alla Evrópu með aðeins fáeinar ferðatöskur og enga hugmynd um hvenær þær gætu snúið aftur til síns heima.

Í kjölfar neyðarástandsins sendi Airbnb.org ákall til samstarfsaðila sinna hjá góðgerðasamtökum og alþjóðasamfélags gestgjafa: „Getið þið hjálpað okkur að veita tímabundið húsnæði fyrir allt að 100.000 manns á flótta frá Úkraínu?“

Síðan þá hefur Airbnb.org náð því markmiði þökk sé gífurlegum stuðningi á heimsvísu frá gestgjöfum, styrktaraðilum Airbnb.org og mannúðarsamtökum sem veita fólki aðstoð á staðnum.

Sumir þeirra sem svöruðu kallinu, eins og Rafal, hafa verið gestgjafar á Airbnb til lengri tíma og bjóða gistingu með afslætti í gegnum Airbnb.org á þessum neyðartímum. Aðrir eins og Mary, sérfræðingur í gagnavísindum frá Bandaríkjunum með búsetu í Berlín, voru á meðal 40.000 nýrra gestgjafa sem skráðu eignir sínar til að bjóða flóttafólki gistingu í gegnum Airbnb.org án endurgjalds eða með afslætti.

Airbnb.org veitti mér markvissa leið til að láta verkin tala.
Host Mary of Berlin

Að finna leið til að veita tafarlausa hjálp

Rafal, skemmtikraftur og gestgjafi á Airbnb skráði eign sína á Airbnb.org rétt eftir að stríðið hófst.

Rafal segir að innrásin í Úkraínu hafi komið öllum sem hann þekkti í Póllandi í opna skjöldu en hann var hissa á því hve fljótt vinir hans og nágrannar brugðust við straumi fólks á flótta frá stríðinu. Fólk gaf matvæli á lestarstöðinni í Wroclaw og safnaði vistum til að fara með að landamærum Úkraínu.

Hann skipulagði einnig góðgerðartónleika með samstarfsfélögum sínum úr tónlistargeiranum en langaði samt að finna tafarlausa leið til að veita hjálp. „Fátt er verra en að hafa sér ekki samastað; gistiaðstöðu og athvarf til að snúa til,“ segir hann.


Rafal er enn með hús sitt á skrá hjá Airbnb.org til að taka á móti gestum á flótta vegna neyðarástandsins. Hann hefur einnig tekið að sér að túlka vefnámskeið Airbnb.org á pólsku.

Að bjóða öruggt rými

Yfir tveggja mánaða skeið árið 2022 tók Mary á móti fjórum einstaklingum sem höfðu flúið Úkraínu.

Mary fylgdist með fréttum um innrásina í Úkraínu frá Berlín sem er staðsett um 350 km (215 mílum) norð-vestur af Wroclaw. Hún skráði íbúð sína gestum að kostnaðarlausu um leið og hún sá ákall Airbnb.org á Netinu.

Starfsmaður ORAM (samtaka fyrir flóttafólk, hælisleitendur og fólksflutninga), sem er einn samstarfsaðila Airbnb.org, hafði samband. Eins og margir fréttamiðlar hafa greint frá ríkir mikil andúð í garð hinsegin fólks í Úkraínu og nágrannalöndum þess sem hefur veikt stöðu þessa hóps sem hrakist hefur frá heimilum sínum í átökunum. Fulltrúi ORAM spurði Mary hvort hún gæti tekið á móti tveimur hinsegin einstaklingum í íbúð sinni.

Mary var ánægð með að taka á móti hinsegin gestum. „Ég vissi að íbúðin mín var sérstaklega öruggt rými fyrir þau,“ segir hún.

Hlúð að tengslum

Dima kom í tveggja vikna dvöl fljótlega eftir brottför fyrstu tveggja gesta Mary. Dima er samkynhneigður maður á tvítugsaldri og var búsettur í Kænugarði þegar Rússar hófu sprengjuárásir borgina. Grasrótarsamtök að nafni Safebow aðstoðuðu Dima og köttinn hans, Peach, að ferðast um Pólland yfir til Berlínar. Þegar þangað var komið hjálpuðu samtökin ORAM við að finna honum húsnæði og komast á skrá hjá félagsþjónustunni.

Eftir ferðalag sem var uppfullt af hindrunum var það Dima mikill léttir að komast í íbúð Mary. „Ég var svo viðkvæmur fyrstu dagana,“ segir hann. „Ég veit hreinlega ekki hvort vóg þyngra; að vera í öruggu rými eða bara að meðtaka allan stuðninginn.“

Mary var utanbæjar fyrstu vikuna sem Dima dvaldi í íbúðinni. Þegar hún kom aftur til Berlínar smullu þau hreinlega saman. Þau vörðu fleiri klukkustundum við eldhúsborð Mary þar sem þau snæddu saman máltíðir og fengu sér bjór. Eftir að hann flutti svo í aðra íbúð héldu þau sambandi.

„Að hefja dvöl mína hér veitti mér gríðarlegt forskot,“ segir Dima.

Að skipta sköpum

Mary talar um hversu áreynslulaus gestaumsjónin var henni. „Ég vann ekkert sérstakt afrek,“ staðhæfir hún. „Ég ákvað að prófa og fór hugsanlega örlítið út fyrir þægindarammann.“

Hún minnist á sögur gesta sinna til samanburðar: „Ég hugsa um að þurfa að takast á við aðstæður á ókunnugum stað sem ég valdi mér ekki að vera á, aðskilin fjölskyldu minni. Það er afrek. Það er erfitt.“

Mary bjóst ekki við að vingast við gesti sína en hún er himinlifandi með tengslin sem mynduðust.

„Oft sjáum við ekki endilega afrakstur allrar þeirrar vinnu sem við leggjum í hlutina,“ segir hún. „En á þennan hátt gat ég skipt sköpum í lífi minnst eins einstaklings.“

Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

Aðalatriði

  • Sex milljónir manns hafa flúið Úkraínu í leit að öryggi á mánuðunum í kjölfar innrásarinnar árið 2022

  • Gestgjafar opnuðu heimili sín til að leggja Airbnb.org lið við að standa við skuldbindingu sína um að veita 100.000 manns tímabundið húsnæði

Airbnb
19. ágú. 2022
Kom þetta að gagni?